Leitað og síað í listum í H3+
Í H3 getur þú leitað að gildi í stökum dálki, sjálfgefnum sviðum öllum sviðum, og jafnvel í lista yfir umsækjendur og umsóknir í viðhengjum við umsóknina.
Leitað í stökum dálki
Til að leita í stökum dálki ferð þú með músina yfir dálkaheitið, smellir á örina við dálkaheitið sem birtist við það, og skrifar svo orð eða orðhluta í leitarreitinn sem þá birtist. Þessi leit leitar sjálfkrafa hvar sem er í textanum.
Leit í stökum dálki er í raun samtímis sía og leit þar sem frá eru síuð þau gildi sem ekki passa við leitarskilyrðin.
Leitað í fleiri dálkum
Ef þú vilt leita í fleiri en einum dálki í einu notar þú leitarstýringuna fyrir ofan listann.
Leitin hér miðar við að leitarstrengurinn sé fremst í textanum en hægt er að nota táknið ‘%’ til að tákna texta, 0, 1 eða fleiri stafi, sem er óþekktur í upphafi eða miðjum texta. Þannig myndi „%dóttir“ skila öllum færslum sem hafa textann „dóttir“ einhvers staðar í sjálfgefnu sviði. Sömuleiðis myndi „Jón % Jónsson“ skila bæði Jóni Jónssyni og Jóni Ólafi Jónssyni - en „Jón Jónsson“ myndi missa af Jóni Ólafi. Hægt er að nota táknið ‘_’ til að tákna einn staf í texta sem er óþekktur, t.d. myndi „_ngvar“ skila bæði Ingvari og Yngvari. Raða má tveimur eða fleirum ´_´saman; t.d. myndi „Arnh_ _ _ur“ skila bæði Arnheiði og Arnhildi. Hinsvegar myndi „Arn%ur“ skila Arnheiði, Arnhildi og Arnaldi.
Gott er að smella fyrst á örina við stýringuna til að sjá hvaða leitarmöguleikar eru í boði í viðkomandi lista og velja það sem við á.
- Leit í sjálfgefnum sviðum er hröðust og miðast við að leitin fari eingöngu fram í fyrirfram skilgreindum sviðum. Þessi svið eru algengustu sviðin sem leitað er eftir í lista, sem eru t.d. starfsstétt, nafn, kennitala og deild í listanum Mannauður. Haltu músarbendlinum yfir valmöguleikanum til að sjá lista yfir dálka sem leitað er í þegar leit í sjálfgefnum sviðum eru notuð.
- Leit í öllum sviðum leitar í öllum sviðum listans – ekki bara þeim sjálfgefnu. Þar sem þessi aðgerð getur verið hægvirkari en leit í sjálfgefnum sviðum er ráðlegt að nota aðgerðina eingöngu ef mögulegt er að gildið sé að finna í sviði sem ekki er í sjálfgefnu leitinni.
- Leit í öllum sviðum og viðhengjum er einungis í boði í lista yfir umsóknir og lista yfir umsækjendur. Þegar leitað er í öllum sviðum miðar leitin við að leitarstrengurinn sé fremst í textanum en þegar hún leitað er í viðhengjum með umsókn eða umsækjanda þá getur leitarstrengurinn verið hvar sem er í viðhenginu. Þessa leit má því nota til að að leita að leitarorði í ferilskrám sem umsækjendur hafa sent inn. Vinsamlega athugaðu að til að virkja þessa leit þarf aðstoð ráðgjafa. Endilega hafðu samband við okkur ef þú vilt virkja þessa leit hjá þér.
Síað eftir stöðu starfsmanns, gildum, tímabilum eða öðrum takmörkunum
Síur gera þér kleift að sjá eingöngu þau gögn sem þú vilt sjá hverju sinni. Vel síaður listi auðveldar notanda að sjá aðeins það sem hann þarf að sjá – og svo er hægt að vista þá síu. Hægt er að sía lista á nokkra mismunandi vegu.
Síað miðað við stöðu starfsmanns
Sjálfgefin sía á mörgum listum í H3 er að sýna eingöngu gögn fyrir starfsmenn sem eru í starfi/leyfi. Þessi sía er sýnileg í haus hvers lista. Viljirðu sjá hætta starfsmenn má hreinsa þessa síu í burtu.
Síað á gildi í dálki
Hægt er að setja síu á gögn í hvaða dálki sem er með því að smella á litla þríhyrninginn sem birtist þegar bendillinn er dreginn yfir viðkomandi dálk. Þá opnast gluggi þar sem valið er hvaða gögn eiga að sjást. Þegar smellt er á „Virkja“ virkjast sían og listinn sýnir eingöngu gögn sem afmarkast af síunni sem sett var.
Þegar sía hefur verið búin til bætist hún við á listann sem birtist hjá síutákninu í haus listans.
Sía hreinsuð
Hægt er að taka af síu(r) með því að smella á örina við hliðina á síuskilgreiningunni í haus listans og velja Hreinsa síu.
Unnið með uppsetningu síu
Hægt er að vista og eyða síu(m) með því að smella á örina við hliðina á síuskilgreiningunni í haus listans og velja Uppsetning síu. Aðgerðirnar hér miðast við þinn aðgang að kerfinu, eru gerðar á þeirri síu sem er valin og sýnileg í listanum.
- Vista síu vistar þær breytingar sem gerðar hafa verið á síunni.
- Vista nýja síu vistar síuna undir nýju nafni. Þessi nýja sía er aðeins aðgengileg þér, nema þú gerir hana sýnilega öðrum.
- Eyða síu eyðir síunni.
- Setja sem sjálfgefna síu gerir síu sjálfgefna þannig að næst þegar þú opnar listann opnast hann með þessa síu virka.
- Gera uppsetningu sýnilega fyrir alla gerir öðrum notendum mögulegt að sjá og opna síu sem þú hefur vistað. Yfirleitt hafa aðeins notendur með mikil réttindi aðgang að þessari aðgerð.