Starfsmannafélag og aðrir frádráttarliðir.
Í H3 er hægt að fara tvær leiðir til að halda utan um greiðslur í starfsmannafélag. Þessar aðferðir er svo hægt að nota fyrir aðra frádráttarliði líka.
Leið 1
Hér er eingöngu notaður launaliður sem starfsmannafélagið er bókað á og notaður launaliður sem byrjar á 7, sjá dæmi hér þar sem starfsmannafélagið er launaliður nr. 760.
Þessi launaliður er þá settur upp í föstum liðum á starfsmanninum
Það þarf svo að setja inn í launatöflur upphæðina sem á að dragast af í hverjum mánuði. Þetta er þá hægt að setja inn í núlltöfluna, 0 Sameiginleg krónu- og réttindatafla ef það er sama upphæð sem á við alla starfsmenn.
Þegar fastir liðir eru staðfestir á starfsmenn þá nær kerfið í upphæðina sem skráð er í krónutöluhlutanum í launatöflunni. Þessi launaliður er svo tengdur inn á ákveðna bókhaldsuppsetningu og skilar sér á viðkomandi lykla í bókhaldsskrá. Ef að millifæra þarf svo upphæðina inn á starfsmannafélagið þarf að gera það í gegnum bókhaldið.
Leið 2
Hér er bæði notaður launaliður sem starfsmannafélagið er bókað á og líka stofnuð gjaldheimta fyrir það. Hér væri þá notaður launaliður sem byrjar á 8, sjá dæmi hér þar sem starfsmannafélagið er launaliður nr. 860. Launategund er þá nr. 18 Gjaldheimta.
Það þarf svo að stofna gjaldheimtu fyrir starfsmannafélagið með því að fara í Stofn - Gjaldheimtur og fylla inn allar helstu upplýsingar, kennitölu, bankareikningsnúmer, greiðsludag, netfang o.fl. Síðan þarf að tengja launalið 860 við gjaldheimtuna, sjá mynd
Þessi gjaldheimta er svo sett upp á starfsmanninum undir Gjöld. Þá er gjaldheimtan valin og sett inn föst tala sem á að dragast af.
Gjöldin er hægt að setja inn á þremur stöðum í kerfinu
Fara í Launamenn, velja launþega og smella á flipann Gjöld og skrá þar inn upplýsingar.
Fara í Skrá tíma og laun, velja launþega og smella á flipann Gjöld og skrá þar inn upplýsingar
Fara í Stofn - Launamenn - Gjöld, ýta á Insert og skrá þar inn upplýsingar í lista. Hentar vel þegar skráð er á marga í einu.
Ef verið er að skrá inn á mjög marga starfsmenn í einu getur einnig hentað að hafa samband við launaráðgjafa og fá hann til að lesa gjöldin inn.
Þegar starfsmannafélag er sett upp sem gjaldheimta þarf ekki að setja neinar upphæðir inn í launatöflu. Upphæðin er skráð inn á starfsmanninn. Hér er hægt að setja gjaldheimtuna upp sem lánardrottinn þegar skrá er flutt í bókhaldið og stofna greiðslur í H3 sem fara beint inn í bankaskrá fyrir þann greiðsludag sem valinn er. Það þarf því ekki að útbúa millifærslu eftirá í bókhaldinu.
Ef verið er að reikna mótframlag launagreiðanda á starfsmannafélagsgjöld er hægt að stofna starfsmannafélag sem stéttarfélag, mótframlögin reiknast þá í H3 og flytjast þaðan í bókhald.
Mælt er frekar með því að stofna það sem gjaldheimtu. Mótframlögin eru þá reiknuð eftirá og bókuð sérstaklega í bókhaldið.